
Hús Ásgríms Jónssonar
Hús listamannsins er heimili Ásgríms Jónssonar (1876—1958) í grónu íbúðahverfi við Bergstaðastræti.

Ásgrímur Jónsson 1876-1958
Vetur í Reykjavík. Verkamenn við vinnu,
Yfirstandandi í Húsi listamannsins

Ásgrímur Jónsson 1876-1958
Frá Reykjavík, kvöld, 1910
Ásgrímur Jónsson (1876—1958) er einn brautryðjenda íslenskrar myndlistar og varð fyrstur íslenskra málara til að gera myndlistina að aðalstarfi. Ásgrímur fæddist 4. mars 1876 í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa. Árið 1897 hélt hann til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám við Konunglega listaháskólann 1900—1903. Ásgrímur dvaldist ytra til ársins 1909, en síðasta árið hafði hann vetursetu á Ítalíu. Á leið sinni til og frá Ítalíu kom hann við í Berlín og Weimar í Þýskalandi og sá m.a. verk frönsku impressjónistanna sem höfðu djúp áhrif á hann.
Íslensk náttúra var frá upphafi aðalviðfangsefni Ásgríms og með starfi sínu lagði hann grunninn að íslenskri landslagslist. Sýn hans á náttúruna var mótuð af rómantík 19. aldar og henni var hann trúr, þótt áherslur og vinnuaðferðir breyttust á hartnær 60 ára listamannsferli. Ásgrímur vann enn fremur brautryðjandastarf við myndskreytingar íslenskra þjóðsagna og ævintýra og er einn mikilvirkasti þjóðsagnateiknari Íslendinga.
Ásgrímur málaði í náttúrunni og lagði sig sérstaklega eftir að túlka birtu landsins. Hann málaði jöfnum höndum með vatnslitum og olíulitum og skipar sérstakan sess í íslenskri myndlist sem vatnslitamálari. Framan af var hann natúralismanum trúr, en laust fyrir 1930 fór áhrifa impressjónismans að gæta í verkum hans. Eftir 1940 urðu vinnubrögðin sjálfsprottnari en áður og verkin einkenndust af litsterkum expressjónisma.
Ásgrímur Jónsson lést árið 1958 og ánafnaði íslensku þjóðinni öll eftirlátin listaverk sín ásamt húseign að Bergstaðastræti 74 í Reykjavík. Árið 1960 var Ásgrímssafn opnað í húsi hans. Árið 1987, þegar Listasafn Íslands fluttist í eigið húsnæði, var safn Ásgríms sameinað Listasafninu samkvæmt ákvæðum í erfðaskrá hans.
Í húsinu gefst nánd við liðinn tíma og við listamann sem var einn frumherja íslenskrar málaralistar. Heimsókn í hús listamannsins skapar einlæga mynd af hvernig listamaður helgar sig listsköpunni.
Á döfinni
Hús Ásgríms Jónssonar er staðsett í hjarta Reykjavíkur við Bergstaðastræti 74.
Ásgrímsleiðin

Ásgrímsleiðin er uppástunga til ferðamanna um að þræða slóðir Ásgríms Jónssonar listmálara sem fæddist 4. mars 1876 í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa. Upphaf leiðarinnar getur verið í Hveragerði, á Eyrarbakka eða í Reykjavík. Gestir leiðarinnar geta valið hvar þeir byrja og henni má jafnvel skipta á tvo daga. Ef lagt er af stað frá Eyrarbakka er upplagt að byrja á því að heimsækja safnið og skoða sýninguna „Drengurinn, fjöllin og Húsið“ sem fjallar um hinn unga Ásgrím. Opið er yfir páskana alla daga kl 13.00-17.00.
Þaðan lægi leiðin meðfram ströndinni í austurátt í gegnum Stokkseyri og upp Gaulverjabæjarveginn. Ásgrímur hvílir í Gaulverjabæjarkirkjugarði, þar er hægt að stoppa og ganga að leiðinu. Næsti áningarstaður á Ásgrímsleiðinni væri skógræktin í Timburhólum sem er örstutt frá æskustöðvum hans. Minnismerki um listamanninn stendur í útjaðri skógræktarinnar, norðaustan við skóginn. Þótt húsin í Rútsstaðarhverfi séu löngu horfin má enn sjá frá veginum klettana sem Ásgrímur taldi vera álfakirkju. Á þessari leið sést vel fjallahringurinn sem fóstraði sveininn og veitti honum innblástur. Síðan væri upplagt að heimsækja sýninguna Hornsteinn í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Listamaðurinn sjálfur ánafnaði Listasafni Íslands verk sín og heimili á Bergstaðastræti 74 í Reykjavík og þar er í dag sýning á heimili hans og verkum. Upplagt er að heimsækja Hús Ásgríms í kjölfarið.
Ásgrímsleiðin er samstarfsverkefni Byggðasafns Árnesinga, Listasafns Árnesinga og Listasafns Íslands.
Rætur Listasafns Árnesinga má rekja til gjafar Bjarnveigar Bjarnadóttur, frænku Ásgríms, og tveggja sona hennar sem færðu Árnesingum sjötíu listaverk eftir helstu listamenn þess tíma. Nítján þessara verka voru eftir Ásgrím. Ásgrímur var vikapiltur í Húsinu á Eyrarbakka uppúr fermingu og fór þaðan fullviss um köllun sína í lífinu þannig má finna arfleifð sveitadrengsins úr Árnessýslu í öllum söfnum.
Hér má sjá kort af leiðinni
