GYÐJUR
KONUMYNDIR SIGURJÓNS ÓLAFSSONAR
Sigurjón Ólafsson er meðal þekktustu portrettlistamanna Norðurlanda og eftir hann liggja rúmlega 200 andlitsmyndir. Flestar eru þær af karlmönnum í ábyrgðarstöðum í þjóðfélaginu, en kvenportrett Sigurjóns eru síður þekkt, að undanskilinni myndinni sem hann gerði af móður sinni árið 1938. Fyrir þá mynd hlaut Sigurjón hin eftirsóttu dönsku Eckersberg-verðlaun árið 1939. Ríkislistasöfn þriggja Norðurlanda eiga eintök af þeirri mynd.
Sigrún Magnúsdóttir, 1930.Sigrún Magnúsdóttir var við nám í leiklistarskóla Konunglega Leikhússins í Kaupmannahöfn þegar Sigurjón, sem þá nam við myndhöggvaradeild Konunglega listaháskólans þar, gerði þetta portrett af henni. Um það segir danski listfræðingurinn Lise Funder meðal annars: Þessi mynd hefur á sér yfirbragð sígildrar tjáningar, sem Utzon-Frank kenndi við „menningararfleifðina“ og brýndi stöðugt fyrir nemendum sínum. ... Djúpar og reglubundnar línurnar í hárinu leiða hugann að mynd eftir Utzon-Frank sem ber nafnið Afrodíta. Sú mynd er hins vegar fremur fjarræn og tómlát í útliti, öfugt við myndina af íslensku söngkonunni sem er nútímaleg ung kona með viðkvæmnislegan munn og blik í augum. (Sigurjón Ólafsson, Ævi og list I, Reykjavík 1998, bls. 80-81.) Myndin var fyrst sýnd á Kunstnernes Efterårsudstilling 1930.
Margarethe Krabbe, 1931.Sumarið 1931 kom Sigurjón til Íslands og hélt sýningu á nokkrum verkum sínum, þar á meðal sem hann hafði nýhlotið gullverðlaun Listaháskólans fyrir. Í framhaldi af því var Sigurjón fenginn til að gera portrett af hjónunum Thorvald Krabbe vitamálastjóra og konu hans Margarethe Krabbe. Til er ljósmynd sem sýnir Sigurjón vinna að portretti Margarethe á heimili þeirra hjóna í Tjarnargötu. Myndin var fyrst sýnd á Charlottenborgs Efterårsudstilling 1937.
Móðir mín / My Mother, 1938.Þetta verk er án vafa eitt af allra glæsilegustu portrettum Sigurjóns. Það varð til á einum eftirmiðdegi í eldhúsi móður hans, Guðrúnar Gísladóttur, sumarið 1938 er hann var í fríi á Íslandi. Myndin var fyrst sýnd á Grønningen sýningunni í Kaupmannahöfn 1939 og fyrir hana hlaut Sigurjón Eckersberg heiðurspeninginn. Um verkið segir danski listfræðingurinn Pierre Lübecker: Þetta er persónulýsing sem er svo sterk, að menn skynja heila þjóð í þessu andliti. (Sýningarskrá: Sigurjón Ólafsson; Danmark - Island 1991. Silkeborg Kunstmuseums Forlag 1991, bls. 59/64.) Ríkislistasöfnin í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi og Reykjavík eiga eintak af þessu verki
Birgitta Spur, 1950.Danski listfræðingurinn Charlotte Christensen segir að þessi andlitsmynd af Birgittu Spur sé: ... meira stílfærð og djarfari en aðrar myndir Sigurjóns. Andlitið er byggt upp af hreinum flötum sem gæti skírskotað til höggmynda kúbismans og augun eru litlir tíglar. Þrátt fyrir einföldunina er verkið lifandi og lýsir karakter fyrirsætunnar. (Sýningarskrá: Billedhuggeren Sigurjón Ólafsson og hans portrættur. Listasafn Sigurjóns Ólafsson, Reykjavík 2008, bls. 49.)
Portrett af konum eftir Sigurjón Ólafsson ásamt öðrum verkum hans, höggvin í stein eða tré, þar sem hinni kvenlegu ímynd - das ewig weibliche - er lýst og hún tekur á sig mynd gyðjunnar, voru á sýningunni Gyðjur. Konumyndir Sigurjóns Ólafssonar í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar 17.10.-29.11.2015. Sýningin var haldin í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi. Nánar um sýninguna.
Saltfiskstöflun / Stacking Salt Fish, 1934-35.Hin volduga lágmynd Saltfiskstöflun er frá síðasta námsári Sigurjóns. Myndefnið - konur sem vinna við saltfisk - er hefðbundið, en útfærslan módernísk og klassísk í senn á þann hátt hvernig Sigurjón vinnur með myndflötinn, hann brýtur upp kyrrstæðu myndarinnar með því að leyfa formunum að ná út fyrir rammann. Myndina mótaði hann í fullri stærð, fjögurra metra háa, fyrst í leir og steypti síðan sjálfur í gifs. Sigurjón hafði vonast til að finna myndinni stað á framhlið hins nýja húss Fiskifélags Íslands á horni Ingólfsstrætis og Skúlagötu, sem Guðjón Samúelsson teiknaði og hýsir nú hótel kennt við Arnarhvál. Svo fór ekki, en íslenska ríkið keypti myndina árið 1945 og ári síðar var hún steypt í steinsteypu. Myndin var reist árið 1953 við Vatnsgeymana á Rauðarárholti, í nágrenni við þáverandi Sjómannaskólann í Reykjavík sem nú hýsir Tækniskólann.
Venus, 1935.Hluti af hinu hefðbundna námi í Konunglega listaháskólanum, á þeim árum sem Sigurjón var þar, fólst í formfastri mótun mannslíkamans eftir lifandi fyrirsætum. En strax í burtfararprófsverkefni sínu, Venus 1935, fór Sigurjón út fyrir fagurfræðilegar venjur samtímans. Stúlkan minnir á framsæjar gangandi fígúrur í egypskri list, sem voru gerðar samkvæmt ákveðnum reglum eða „kanon“ þess tíma. Hin einfölduðu stóru form verksins bera þess merki að Sigurjón hafði stúderað og kópíerað styttur frá arkaíska tímabilinu í grískri höggmyndalist frá því um 500 fyrir Krist. Verkið er mótað í leir, en steypt í steinsteypu.
Kona úr baði / Woman Bathing, 1948.Þegar Sigurjón sneri heim til Íslands árið 1945 eftir margra ára búsetu í Danmörku, hóf hann að vinna stóra skúlptúra úr grásteini, þar á meðal þessa mynd og Konu með kött. Það var mjög einkennandi fyrir Sigurjón að hann valdi opin heiti á verkum sínum, því hann vildi ekki þvinga ákveðnar hugmyndir inn á áhorfandann, þó táknin gætu verið skýr. Flestir vita að köttur var tákn ástargyðjunnar Freyju, og margir vita einnig að gríska ástargyðjan Afrodíta steig alsköpuð upp úr löðri hafsins. Ef við kjósum að sjá Konu úr baði sem eins konar íslenska hafmeyju eða stúlku á ylströndinni í Nauthólsvík, er ekkert að því. Áhorfandinn hefur fullt frelsi til túlkunar.
Pallas Aþena, 1973Myndin er útfærð sem eins konar Janusarhöfuð, það er höfuð með tveimur gagnstæðum andlitum þannig að þau horfa hvort í sína áttina. Í rómverskri goðafræði var Janus verndargoð upphafs og breytinga. Það er þó greinilegt að hið tvöfalda höfuð, sem Sigurjón vann úr límtré, er kvenkyns; hárið endar í fléttum og drættir andlitanna eru fíngerðir. Það var því snjallt hjá Birni Th. Björnssyni listfræðingi að nefna verkið , en þessi gríska gyðja hafði tvöfalt hlutverk; gyðja hernaðarlistar og gyðja viskunnar. Oft hafa listfræðingar undrast hvernig Sigurjón sveiflaðist frá raunsæi yfir í afstrakt - en sjálfur sagðist hann ekki sjá neina mótsögn í þessum vinnubrögðum. Fyrir þá sem skoða er það nærliggjandi að halda að einmitt þessar andstæður hafi orðið til að skerpa listsköpunina - þannig gætu hinar hárfínu línur í ásjónu Aþenu verið árangur af áratuga reynslu af mótun mannamynda, þar sem brot úr millimetra skipta máli.