VIÐTÖL UM DAUÐANN - MAGNÚS PÁLSSON OG HELGA HANSDÓTTIR

  • 26.2.2011 - 15.5.2011, Listasafn Íslands
Árið 1999 fékk Helga Hansdóttir, öldrunarlæknir, Magnús Pálsson myndlistarmann til að taka þátt í verkefni með sér sem þau kölluðu Viðtöl um dauðann og tengdist samstarfsverkefninu Listir og vísindi. Árið 2003 leit svo sýning með sama heiti dagsins ljós í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur. Um var að ræða stóran sal, hálfmyrkvaðan, með teppum, veggfóðri, myndum og húsgögnum, en ljós barst frá röntgenmyndvarpa og skjáborði á hjúkrunarstofnun. Gamaldags símaborð voru eins og leiðarstef í þessari umfangsmiklu innsetningu og úr heyrnartólum mátti heyra frásagnir fólks af upplifun sinni, lesnar með ljóðrænum áherslum af fagfólki úr leikarastétt. Sýningin stóð ekki nema í fáeina daga.

Viðtöl um dauðann er nú í eigu Listasafns Íslands og má búast við því að verkið veki ekki síður athygli nú, en yfir því hvílir vissulega dramatískur þungi þótt jafnframt sé það lífsbætandi því það fjallar á nærfærinn hátt um hinstu rök tilverunnar, sem enginn fær umflúið.