SVAVAR GUÐNASON

  • 31.10.2009 - 3.1.2010, Listasafn Íslands

Sýningin er yfirlitssýning á verkum Svavars Guðnasonar (1909-1988) sem er meðal þekktustu listmálara Íslands og er það ekki síst að þakka nánum tengslum hans við danska abstraktlist á árunum 1936 til 1946, en á þeim árum voru danskir abstraktmálarar í fararbroddi sjálfsprottinnar myndlistar í Evrópu. Á sýningunni eru verk úr eigu Listasafns Íslands, einkaeign, úr dánarbúi listamannsins og frá ýmsum stofnunum. Eitt verk kemur erlendis frá, Veðrið frá 1963, sem Listasjóður danska ríkisins gaf Árósarháskóla 1964, ári eftir að Svavar hafði lokið við þrekvirkið.
Sýningin varpar ljósi á þróun Svavars frá miðjum fjórða áratug liðinnar aldar til þess níunda. 

Meginmarkmið með sýningunni á list Svavars er að kynna hana fyrir þeim kynslóðum sem fóru á mis við listamanninn í lifanda lífi en þekkja til hans af orðspori. Með ferskleik sínum og splundrandi krafti náði Svavar að heilla langtum fleiri kynslóðir Íslendinga en samferðamanna sinna einna.

Sýningarstjóri: Sigríður Melrós Ólafsdóttir.

Ráðgjafar: Kristín Guðnadóttir og Björg Erlingsdóttir.