UDSTILLING AF ISLANDSK KUNST

UPPHAF KYNNINGAR Á ÍSLENSKRI MYNDLIST Í KAUPMANNAHÖFN


Í upphafi 20. aldar var unnið mikið brautryðjendastarf á sviði myndlistar á Íslandi og þeim fjölgaði ört sem lögðu stund á hana. Myndlistin var meðal þess sem átti þátt í að skapa sjálfsmynd hinnar fullvalda þjóðar og þar skipti miklu máli túlkun myndlistarmanna á íslenskri náttúru. Í verkum sínum tjá myndlistarmennirnir tilfinningar sínar gagnvart landinu á myndrænan hátt, um leið og þeir tala umbúðalaust og án aðstoðar tungumálsins.

Kynning á íslenskri myndlist erlendis á sér tæplega 100 ára sögu. Dansk-íslenska félagið (Dansk-Islandsk Samfund) reið á vaðið í Kaupmannahöfn þegar það hélt sýningu á verkum fimm íslenskra myndlistarmanna, Fem islandske Malere / Fimm íslenskir málarar, í sýningarsal Georgs Kleis við Vesterbrogade 58 í mars árið 1920. Markmið félagsins var, og er enn, að auka þekkingu á Íslandi meðal Dana og þekkingu á Danmörku meðal Íslendinga. Myndistarmennirnir sem áttu verk á sýningunni voru Ásgrímur Jónsson (1876–1958), Guðmundur Thorsteinsson, Muggur (1891–1924), Jón Stefánsson (1881–1962), Kristín Jónsdóttir (1888–1959) og Þórarinn B. Þorláksson (1867–1924), samtals 158 verk: olíumálverk, vatnslitamyndir, teikningar, grafík o.fl. Muggur átti flest verk eða 80 og sótti hann mikið af sínu myndefni í þjóðsögur og ævintýri. Algengasta myndefnið var þó íslenskt landslag en töluvert var einnig af mannamyndum.

Sýningin átti sér stuttan aðdraganda og var það meðal annars sögð skýringin á því að aðeins voru sýnd verk eftir fimm myndlistarmenn. Þetta var því ekki yfirlitssýning á íslenskri myndlist, þótt að því hefði verið stefnt í upphafi. Sýningin var sögð lítil, bæði í sýningarskrá og blaða-umfjöllun, en var samt sem áður stærsta sýningin hingað til á íslenskri myndlist í Danmörku og reyndar á íslenskri myndlist utan landsteinanna. Sýningin fékk töluverða umfjöllun í dönskum blöðum og yfirleitt jákvæða dóma, þó ekki væru allir á einu máli. Þótti sumum sýningin bera með sér eitthvað framandi og nýtt meðan aðrir sögðu hana hafa sáralítið svipmót sjálfstæðrar íslenskrar listar eða þjóðleg sérkenni, ef frá væri talin íslensk náttúra sem myndefni.

Á þeim 14 dögum sem sýningin Fimm íslenskir málarar var opin hjá listaverkasalanum Georg Kleis skoðuðu hana yfir 1000 gestir, þar á meðal konungshjónin og seldist töluvert af verkum.

Í desember árið 1927 var haldin fyrsta almenna kynningin á íslenskri myndlist í Kaupmannahöfn, Udstilling af islandsk kunst / Íslenska listsýningin á Charlottenborg, sem var sýningarstaður á vegum Konunglega listaháskólans og einn af þeim virtustu í borginni. Á sýningunni voru 243 málverk og teikningar eftir 12 myndlistarmenn, þau Ásgrím Jónsson, Finn Jónsson (1892–1993), Guðmund Einarsson frá Miðdal (1895–1963), Guðmund Thorsteinsson, Gunnlaug Blöndal (1893–1962), Jóhannes S. Kjarval (1885–1972), Jón Stefánsson, Jón Þorleifsson (1891–1961), Júlíönu Sveinsdóttur (1889–1966), Kristínu Jónsdóttur, Sigurð Guðmundsson (1833–1874) og Þórarin B. Þorláksson. Auk þess voru sýndir sjö hátíðarkvenbúningar, silfurmunir, útskurður í tré og horn og gamalt bókband. Verkin voru ýmist í eigu myndlistarmannanna, opinberri eigu eða úr fórum einkaaðila. Þegar sýningunni lauk í Kaupmannahöfn, héldu 141 myndlistarverk áfram til Þýskalands þar sem sýningin var sett upp í Lübeck, Kiel, Hamborg og Berlín í samstarfi við Norræna félagið í Lübeck.


Þessi umfangsmikla sýning var haldin að frumkvæði danska blaðamannsins Georgs Gretor sem kynntist íslenskum myndlistarmönnum á ferð sinni um landið árið 1926. Var markmið hans að kynna íslenska myndlist fyrir erlendum listdómendum og kom hann þvítil leiðar að dönsku dagblöðin tóku að sér að kosta sýninguna í Kaupmannahöfn. Íslenska ríkisstjórnin tók að sér kostnað við allan undirbúning hér heima og var Matthías Þórðarson, fornminjavörður, fulltrúi stjórnvalda. Matthías aðstoðaði Gretor við val verka hér á landi og fylgdi verkunum til Danmerkur. Héðan voru send 264 verk með Gullfossi og í Kaupmannahöfn bættust við verk í eigu myndlistarmanna sem voru búsettir þar auk verka í einkaeigu. Ásamt Matthíasi Þórðarsyni og Georg Gretor tóku rithöfundurinn Poul Uttenreitter og myndlistarmennirnir Jón Þorleifsson og Júlíana Sveinsdóttirþátt í að koma sýningunni fyrir í sölum Charlottenborgar. Ekki voru öll verkin sem fóru frá Íslandi valin til sýningar og þótti sumum það miður en Georg Gretor lagði áherslu á að velja verkin á sýninguna af kostgæfni. Í viðtali sagði hann meðal annars:

En mest ríður á að því, að sýningin verði eins góð og unt er. .Jeg er á þeirri skoðun, að íslensk málaralist hafi eftirtektaverð og merk sjereinkenni, sem hvergi sjeu annarstaðar til. Þessi sjereinkenni þurfa að koma í ljós á sýningunni. Og fari svo, að svo vel takist, að hinir erlendu listdómarar komi auga á sjereinkennin, meti þau, telji þau vott um þjóðarsjerkenni, telji þau hafa varanlegt listrænt gildi, þá er brautin rudd fyrir íslenskar sýningar erlendis, fyrir íslenska list í meðvitund stórþjóðanna. (Morgunblaðið, 22. nóvember 1927)

Íslenska listsýningin
var opnuð með mikilli viðhöfn á Charlottenborg 10. desember 1927 í viðurvist konungshjónanna, ráðherra, sendiherra og fleiri stórmenna. Bæði dönsk og íslensk blöð skrifuðu óspart um sýninguna og birtu myndir frá henni. Mikill fjöldi gesta sótti sýninguna, má til dæmis nefna að fyrsta sunnudaginn sem sýningin var opin komu um 700 gestir.
Yfirleitt fékk sýningin jákvæða dóma og þótti íslensk myndlist áhrifameiri og auðugri en vænta mátti af þjóð sem taldi aðeins rúmlega 100.000 íbúa og átti sér enga innlenda hefð. Einkum vöktu landslagsmyndirnar eftirtekt, enda íslensk náttúra ólík því sem menn áttu að venjast, en tæplega helmingur verkanna sótti myndefni í íslenskt landslag. Gagnrýnendur voru flestir á því að Jón Stefánsson væri bestur íslenskra málara, en verk þeirra Finns Jónssonar og Gunnlaugs Blöndal þóttu nýstárlegust. Þegar sýningunni lauk 23. desember sama ár höfðu 16 verk selst og keypti Ríkislistasafn Danmerkur fjögur þeirra.

Á sínum tíma vakti Íslenska listsýningin mikla eftir tekt og var hún síðar talin hafa haft örvandi áhrif á íslenska myndlistarmenn og þróun íslenskrar myndlistar en sýningin skapaði grundvöll til að tengja Ísland við vestræna myndlistarhefð um leið og hún þótti til marks um íslenska sérstöðu.  Íslenska listsýningin í Kaupmannahöfn og Norður-Þýskalandi 1927–1928 markaði tímamót sem fyrsta opinbera kynningin á íslenskri myndlist erlendis. Með henni lauk einnig fyrsta skeiði íslenskrar nútímamyndlistar sem einkenndist af frumherjastarfi, jafnt myndlistarmanna sem annarra er áttu þátt í að skapa myndlistarlífi grundvöll hér á landi. Jafnframt markaði sýningin upphaf að breyttum afskiptum hins opinbera af listmálun hér á landi, en árið 1928 samþykkti Alþingi lög um Menningarsjóð og Menntamálaráð og var þá í fyrsta sinn tryggð árleg fjárupphæð til listaverkakaupa á vegum ríkisins.

Verkin sem sjá má á núverandi sýningu í Listasafni Íslands eru aðeins hluti þeirra verka sem sýnd voru í Kaupmannahöfn 1920 og 1927. Koma flest þeirra úr safneign Listasafns Íslands en einnig eru verk fengin að láni hjá öðrum söfnum, fyrirtækjum og einkaaðilum. Upplýsingar um hvaða verk voru á sýningunum 1920 og 1927 eru fengnar úr sýningarskrám, blaðaumfjöllunum, ljósmyndum og litlu hefti, Islands Kultur und seine junge Malerei, sem Georg Gretor ritaði á þýsku um íslenska myndlist árið 1928. Oft er erfiðleikum bundið að staðfesta með óyggjandi hætti hvaða verk um ræðir þegar aðeins liggur fyrir nafn myndlistarmanns og heiti verks og á það einkum við um verkin sem voru á sýningunni 1920.

Sýningarstjóri:
Dagný Heiðdal

Deildarstjóri sýningadeildar:
Birta Guðjónsdóttir

Höfundar sýningartexta:
Björg Erlingsdóttir
Dagný Heiðdal
Harpa Þórsdóttir
Júlíana Gottskálksdóttir
Rakel  Pétursdóttir
Steinar Örn Atlason

Undirbúningur og uppsetning sýningar:
Baldur Geir Bragason
Elín Guðjónsdóttir
Geirfinnur Jónsson
Hrafnhildur Guðmundsdóttir
Sigurður Gunnarsson
Svanfríður Franklínsdóttir

Grafísk hönnunn:
Studio Studio Arnar Freyr Guðmundsson og Birna Geirfinnsdóttir
Hildigunnur & Snæfríð

Lýsing:
Rafsel

Listasafn Íslands þakkar Eimskip Ísland ehf fyrir veittann stuðning við flutning málverks frá Akureyri til Reykjavíkur.