Listamaður á söguslóðum
Árið 1926 stóðu rithöfundarnir Gunnar Gunnarsson og Johannes V. Jensen fyrir því að gefa út danska þýðingu Íslendingasagna í tilefni þess að árið 1930 voru eitt þúsund ár liðin frá stofnun Alþingis á Þingvöllum.
Danski listmálarann Johannes Larsen (1867-1961) var fenginn til að koma til Íslands og festa á teikniblokk sína helstu sögustaði landsins. Teikningunum var ætlað að gefa dönskum lesendum innsýn í atburðasvið sagnanna en ekki vera myndræn lýsing á atburðum eða sagnapersónum.
Johannes Larsen kom tvisvar til Íslands í þessum tilgangi, sumrin 1927 og 1930, og ferðaðist um á hesti, oft við mjög erfið skilyrði, og var aðalfylgdarmaður hans Ólafur Túbals, bóndi og listmálari frá Múlakoti í Fljótshlíð. Á þessum ferðum sínum teiknaði Johannes Larsen á fjórða hundruð tússteikninga, og birtust um 200 þeirra í bókunum.
Teikningarnar á þessari sýningu eru í eigu afkomenda listamannsins í Danmörku, Svíþjóð og Bandaríkjunum. Það er alfarið elju og dugnaði sýningarstjórans og Íslandsvinarins Vibeke Nørgaard Nielsen að þakka að þessar teikningar koma nú fyrir almenningssjónir, hér og á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn, fyrr á þessu ári.
Stærstan hluta listaverka Johannesar Larsen; málverk, teikningar, dúk- og tréristur, er að finna á safni hans Johannes Larsen Museet í Kerteminde á Fjóni.
Styrktaraðilar sýningarinnar eru:
•Johannes Larsen Museet
•Velux Fonden
•Fondet for Dansk-Islandsk Samarbejde
•Familien Hede Nielsens Fond
•TVG-Zimsen
•Danska sendiráðið á Íslandi