GERSEMAR - DÝR Í BÚRI

  • 8.11.2013 - 11.5.2014, Listasafn Íslands
Gersemar eru helgaðar Edvard Munch og 150 ára afmæli hans, en Munch fæddist 12. desember árið 1863. Sýningin ber yfirskriftina Dýr í búri, en meðal grafíkmynda Munchs í fórum Listasafns Íslands er að finna steinþrykksblaðið Hlébarði í búri, frá 1920, undir númerinu LÍ 742. Afmælisbarninu víðfræga fylgja verk eftir hátt í 15 samtímalistamenn – íslenska og erlenda – sem lýsa með einum eða öðrum hætti svipaðri einangrunar- og innilokunarkennd og birtist í svo mörgum verkum norska meistarans. Afmælissýningin Gersemar - Dýr í búri er góðfúslega styrkt af Norska menningarráðinu og sendiráði Noregs í Reykjavík.