• Spor í Sandi

SPOR Í SANDI - SIGURJÓN ÓLAFSSON

  • 23.5.2014 - 26.10.2014, Listasafn Íslands

Yfirlitssýning á verkum Sigurjóns Ólafssonar (1908–1982) myndhöggvara, en árið 2012 varð Listasafn Sigurjóns Ólafssonar á Laugarnestanga deild innan vébanda Listasafns Íslands. 

Sigurjón var meðal allra áhrifamestu listamanna Íslands á eftirstríðsárunum, en grunninn að listsköpun sinni lagði hann í Danmörku á fjórða og fimmta áratug liðinnar aldar. Auk þess að taka virkan og mótandi þátt í danskri framúrstefnulist á þeim viðsjárverðu tímum þegar Danmörk var hernumin, var hann alla ævi í fararbroddi íslenskrar höggmyndalistar.

Yfirlitssýning á verkum Sigurjóns Ólafssonar er í tveimur söfnum, þ.e. Listasafni Íslands og Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í Laugarnesi. Í Listasafni Sigurjóns á Laugarnestanga eru sýnd valin verk eftir listamanninn frá námsárum hans í Kaupmannahöfn 1928–1935, en í Listasafni Íslands eru til sýnis lykilverk frá árunum 1936–1982.

Sýningarstjórar eru Birgitta Spur og Æsa Sigurjónsdóttir.