Í LJÓSASKIPTUNUM

  • 5.7.2014 - 28.9.2014, Listasafn Íslands

Sýningin Í ljósaskiptunum tekur mið af þeim magnaða hluta sólarhringsins, sem hvorki er dagur né nótt heldur bil milli beggja. Eftir því sem lönd liggja nær pólunum, suður eða norður, lengist sá tími er tekur sólina að rísa og setjast. Á slíkum stöðum geta ljósaskiptin varað lengi og varpað tvíræðri birtu yfir umhverfið. Skammdegið eykur lengd ljósaskiptanna til muna svo að dagsbirtan verður vart meir en nokkurra stunda skíma, sem varpar löngum skuggum á umhverfið.

Verk sýningarinnar eru öll eftir íslenska listamenn og úr safneign Listasafns Íslands, og spanna tímabilið frá 1900 til 2013. Á sýningunni má meðal annars sjá verk eftir listamennina Ásgrím Jónsson, Ásgerði Búadóttur, Doddu Maggý, Gerði Helgadóttur, Guðmundu Andrésdóttur, Jón Stefánsson, Sigurð Árna Sigurðsson, Spessa (Sigurþór Hallbjörnsson), Svavar Guðnason og Þórarin B. Þorláksson.