RÚRÍ - YFIRLITSSÝNING

  • 3.3.2012 - 6.5.2012, Listasafn Íslands

Í nær fjóra áratugi hefur Rúrí staðið framarlega í fylkingu íslenskra listamanna í gjörningalist, innsetningum, rafrænum miðlum og höggmyndagerð. Dirfska hennar sem tilraunalistamanns hefur birst í gjörningum sem hafa þótt ganga undrum næst. Eftir að hafa brotið með sleggju gullna Mercedes-bifreið á Lækjartorgi, klæddist hún íslenskum kvenbúningi, ísaumuðum bandaríska fánanum, á fjölmennum hátíðarfundi í Háskólabíói. Þessir gjörningar höfðu sterka pólitíska skírskotun en mörkuðu samt upphaf að fínlegri og persónulegri verkum þar sem náttúra og óendanleiki, örskotsstund og tímaleysi voru skilgreind með nýjum hætti með hverfulum verkum. Þar má nefna verk eins og Regnbogi I, 1983, þar sem himinhá bambusstöng með marglitum línfána í ljósum logum markaði hápunkt langs gjörnings sem festur var á filmu sem helgileikur tileinkaður lífi og náttúru.

Verkið Archive - Endangered Waters (Vötn í útrýmingarhættu) frá 2003, áhrifamikill og gagnvirkur járnstrúktúr var til sýnis í íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum árið 2003. Í þessu járnvirki voru 52 gegnsæjar litskyggnur sem sýndu íslenska fossa sem allir voru í hættu vegna áætlana um virkjanir á hálendi Íslands í þágu stóriðju. Þegar myndirnar voru dregnar út úr járnvirkinu mátti heyra að hver foss hafði sinn einstaka og ómetanlega hljóm. Hvort sem hinir snilldarlegu strúktúrar Rúríar eru margbrotnir eða einfaldir þá hreyfa þeir iðulega með afgerandi hætti við áhorfandanum og forða honum frá því að verða merkingarsnauðu hlutleysi að bráð.

Á sýningunni gefur að líta helstu verk Rúríar auk mynda af mörgum þekktustu gjörningum hennar, um 100 verk, bæði stór og smá. 

Sýningarstjóri er þýski listfræðingurinn Christian Schoen.