KJARVAL - ÚR FÓRUM JÓNS ÞORSTEINSSONAR OG EYRÚNAR GUÐMUNDSDÓTTUR

  • 27.5.2011 - 11.9.2011, Listasafn Íslands

Listasafn Íslands opnar sýningu á úrvali málverka og teikninga eftir Jóhannes Sveinsson Kjarval úr safni Jóns Þorsteinssonar (1898–1985) íþróttakennara og konu hans Eyrúnar Guðmundsdóttur (1898–1996) þann 27. maí 2011. Á sýningunni er lögð áhersla á kúbíska abstraksjón og fígúrur í lifandi landi. Þetta eru mikilfengleg verk þar sem hið smáa og fínlega í náttúrunni er þó ekki langt undan. Jón var alla tíð einlægur listunnandi og náinn vinur margra þekktustu myndlistarmanna þjóðarinnar. Það mun hafa verið árið 1937 sem hann eignaðist sitt fyrsta verk eftir Kjarval og var það upphafið að stóru listaverkasafni þeirra hjóna. Í safni Jóns og Eyrúnar er meðal annars að finna verk eftir Ásgrím Jónsson, Jón Stefánsson, Svavar Guðnason og fleiri, en verk Kjarvals eru þó meginuppistaðan. Hjónin voru ötul við að deila safninu með samborgurum sínum, ýmist með því að lána verk á sýningar eða í formi gjafa til Listasafns Íslands og Kjarvalssafns í Listasafni Reykjavíkur.