ÞAÐ BLÆÐIR ÚR MORGUNSÁRINU - JÓNAS E. SVAFÁR

  • 22.1.2011 - 13.2.2011, Listasafn Íslands

Sýning á teikningum og ljóðabókum Jónasar E. Svafár (1925–2004) í Listasafni Íslands. Jónas vann jöfnum höndum sem dráttlistarmaður og ljóðskáld. Fyrstu ljóð og myndir Jónasar verða til um miðja síðustu öld þegar nýjar tjáningarleiðir ljóð- og myndlistar ryðja sér til rúms, atómskáldskapur og abstraktlist. 

Jónas E. Svafár hefur einkum öðlast sess innan íslenskrar menningarsögu sem ljóðskáld. Myndverkum Jónasar hefur síður verið veitt eftirtekt en ljóðlist hans enda þótt Jónas hafi litið á verk sín sem eina heild. 
Jónas var af samferðamönnum sínum kallaður grallari, sérvitringur, galgopi og hrekkjalómurinn með orðaleikina.

Listasafn Íslands hefur nýverið eignast nokkrar af teikningum Jónasar og verða þær til sýnis ásamt ljóðabókum Jónasar, þar á meðal hinni fyrstu, Það blæðir úr morgunsárinu, sem skáldið gaf út í 37 handgerðum eintökum árið 1952.