KARL KVARAN

  • 17.11.2010 - 13.2.2011, Listasafn Íslands

Karl Kvaran var meðal helstu forvígismanna geómetrískrar abstraktlistar á Íslandi upp úr miðri síðustu öld. Hann hélt tryggð við einfalda, markvissa formbyggingu verka sinna og telst því meðal helstu tengiliða franskættaðrar abstraktlistar og mínimalískrar tjáningar sem leysti fyrri skyldar liststefnur af hólmi. Eftir á að hyggja skar Karl sig úr hópi samferðamanna sinna sökum einstæðrar samkvæmni í verklagi og myndhugsun. Þótt hann hyrfi frá beinum línum hreinflatastefnunnar og hneigðist til sveigðrar og hringlaga formmótunar varð málaralist hans æ hreinni og beinni þótt tilfinning hans fyrir samspili vídda yrði að sama skapi margslungnari eftir því sem á leið. Litanotkun hans var sérkapítuli enda tefldi hann óragur saman gagnkvæmum litflötum með skærum skala sem rífur í sjóntaugarnar. Að þessu leyti brúaði Karl bilið milli abstraktmálverks og popplistar, en bak við þá leikni með litrófið bjó einstök teiknikunnátta.