MOLDARLJÓS

  • 19.2.2011 - 20.2.2011, Listasafn Íslands

Sýningin byggir á myndheimi Eggerts Péturssonar myndlistarmanns og hljóðheimi Hauks Tómassonar tónskálds þannig að úr verða listaverk sem kallast á, Moldarljós. Gunnlaugur Sigfússon, læknir, átti sinn þátt í tilurð Moldarljóss með því að leiða saman hesta beggja listamanna. Þeir hittust reglulega, mánuðum saman, áður en samstarfsverkefnið varð að veruleika. Haukur fylgdist með Eggerti mála og Eggert hafði tóna Hauks í eyrunum á meðan hann vann. Þannig fléttaðist verkið saman, eða verkin, því málverk Eggerts urðu fjögur og tónverk Hauks er í fjórum hlutum, sem kallast á við hverja mynd. Bygging tónverksins og myndanna fylgist því að í fleiri en einum skilningi. Hvert blóm eða tegund fékk sitt hljóðfæri og þannig er hægt að fylgjast með framvindu tónverksins í myndunum – og öfugt.


CAPUT tónlistarhópurinn flutti verkið MOLDARLJÓS undir stjórn Guðna Franzsonar.