CARS IN RIVERS - ÓLAFUR ELÍASSON

  • 16.9.2010 - 7.11.2010, Listasafn Íslands

Cars in rivers, 2009 lýsir barningi mannsins við óútreiknanlega náttúru, um leið og myndröðin gæti með táknrænum hætti lýst efnahagshremmingum þeim sem við Íslendingar höfum lent í síðustu misserin og mætti líkja við kafsiglingu torfærubíla í straumhörðum vatnsföllum.

Jökla Series, 2005 er skrásetning listamannsins á Jökulsá á Dal (Jöklu) frá jökulrótum að svæðinu þar sem Kárahnjúkastífla rís, en reyndar var gerð stíflunnar langt komin þegar myndröðin var unnin. Síðan fylgdi listamaðurinn ánni töluvert áleiðis í átt að ósi. Hér er því um einstæða heimild að ræða því Jökla hefur algjörlega breytt um svip.

Auk þessara myndraða eru sýndar Green river series og þrjár nýjar ljósmyndaraðir frá 2010 sem sýna auðnir Íslands og náttúruöfl sem þó fóstra gróður og menningarleg ummerki þar sem síst skyldi ætla.