NOKKRIR VINIR

  • 13.2.2009 - 3.5.2009, Listasafn Íslands
Sýningin bregður ljósi á þann kapítula í íslenskri listasögu þegar formræn list lét undan síga fyrir óformrænum gildum og önnur viðhorf tóku að banka uppá með þunga uppúr miðri síðustu öld. Horft er til komu svissneska listamannsins Dieter Roths til landsins og þeirrar gerjunar er varð meðal nokkurra ungra listamanna um sama leyti sem þekktust vel og umgengust mikið. Gagnkvæm áhrif þessa fólks og áhrif á myndlistina í landinu verða í brennidepli sýningarinnar.
Á sýningunni eru hátt í hundrað verk og á annað hundrað ef talið er eftir myndröðum undir sama númeri.

Verkin á sýningunni spanna tímabilið frá miðri síðustu öld fram á daginn í dag og eru eftir: Arnar Herbertsson, Björn Roth, Dieter Roth, Erró, Hreinn Friðfinnsson, Hörður Ágústsson, Jóhann Eyfells, Jón Gunnar Árnason, Kristján Guðmundsson, Magnús Pálsson, Magnús Tómasson, Róska, Rúrí, Sigurð Guðmundsson, Sigurjón Jóhannsson, Þórður Ben Sveinsson. Auk þess verður kvikmynd Hilmars Oddsonar um Dieter Roth sýnd í tengslum við sýninguna. 

Flest verkin eru úr eigu Listasafns Íslands en drjúgur hluti kemur úr fórum Nýlistasafnsins og þakkar Listasafnið gott samstarf við aðstandendur þess. 

Sýningarstjórar: Björn Roth, Halldór Björn Runólfsson og Sigríður Melrós Ólafsdóttir.

Hönnun sýningar: Ívar Valgarðsson.