UDSTILLING AF ISLANDSK KUNST

Upphaf kynningar á íslenskri myndlist í Kaupmannahöfn

  • 21.1.2016 - 11.9.2016, Listasafn Íslands

Árið 1927 var haldin fyrsta opinbera kynningin á íslenskri myndlist í Kaupmannahöfn, Udstilling af islandsk kunst í Charlottenborg. Sýningin var tímamótasýning, þar voru sýnd tæplega 350 verk eftir tólf íslenska myndlistarmenn. Sýningin var haldin að frumkvæði danska blaðamannsins Georgs Gretor með opinberum styrk og því yfirlýsta markmiði að efna til kynningar á íslenskri myndlist erlendis. Sýningin hefur gengið undir heitinu Íslenska listsýningin í Kaupmannahöfn.

Sjö árum áður árið 1920 stóð Dansk-Islandsk Samfund fyrir fyrstu samsýningunni á íslenskri myndlist, Fem islandske malere, í sýningarsal Kleis með 158 verkum fimm myndlistarmanna. 

Á sýningunni nú í Listasafni Íslands verður litið um öxl og sýndur hluti verkanna sem voru á þessum tímamótasýningum í Kaupmannahöfn. Sýningin er unnin í samvinnu við Dansk-íslenska félagið, sem stofnað var í Kaupmannahöfn árið 1916, en eitt af markmiðum félagsins er að stuðla að aukinni þekkingu á Íslandi í Danmörku. 

Sýningarstjóri Dagný Heiðdal.

nánar um sýninguna